top of page

Snilldarstund umsögn númer tvö


Jæja nú eru liðnir nokkrir tímar og hægt að skrifa almennilega um efnið. Eftir byrjunarörðugleika eru hlutirnir farnir að ganga mun betur. Við ætlum að keyra þessa fyrstu umferð í gegn og nota hana til að læra af henni hvað hægt er að gera betur og hvernig við eigum að snúa okkur í framhaldinu. Eins og staðan er núna er um helmingur kominn vel á veg og búnir að meðtaka hugmyndina að fullu. Mikil vinna í gangi og margar flottar hugmyndir sem líta dagsins ljós. Það sem kemur mest á óvart er hversu fjölbreytt efni krakkarnir eru að vinna að. Við erum búin að fá Súkkulaðigerðarmann, forritara, lagahöfund, spænskunema, matreiðsluþátt og margt fleira.

Það sem hefur gengið vel er þegar nemendur tileinka sér þann hugsunarhátt að þetta snýst ekki um að klára eitthvað afmarkað verkefni heldur er aðalatriðið að njóta þess að læra um það sem áhuginn er á. Þau eru rosalega föst í því að hafa hlutina afmarkaða og fastmótuð skil þannig að allir séu með það á hreinu hvernig þau eiga að skila. Það hefur reynst þrautinni þyngri að breyta þessu. Þeir sem hafa tekið þessum nýja hugsunarhætti opnum örmum hafa staðið sig mun betur heldur en hinir sem eru enn fastir í því að skilin séu það sem máli skiptir. Ég get ekki talað nógu mikið fyrir því að til þess að þetta gangi vel þá er það nauðsynlegt að þau hafi það á hreinu að þetta sé aðalatriðið í verkefninu. Ekki einblína á skilin heldur vinnuna sem liggur að baki lærdómnum. En ég hef fulla trú á því að þetta komi þeim til góða og auki hjá þeim metnað fyrir eigin vinnu.

Þó nokkrir nemendur hafa á þessum tímapunkti skipt um verkefni og höfum við leyft það með bros á vör. Við erum alveg viss um það að sum þeirra þurfa að reka sig á og byrja á einhverju öðru og eru margar ástæður þar að baki. Sú helsta er að vegna þess hve verkefnið er nýtt þá völdu þau sér eitthvað sem þau héldu að myndi henta vel til að skila en ekki endilega eitthvað sem þau höfðu brennandi áhuga á og sáu svo hjá þeim sem komnir eru á flug hversu gaman þetta getur verið þegar unnið er að því sem áhugi er á. Við erum að gæla við það að leyfa þeim sem vilja að vinna saman að verkefnum næst og höfum við t.d. fengið fyrirspurn um hvort ekki sé hægt að nýta tímann í að vinna útvarpsþátt (Podcast). Nokkrir drengir hafa brennandi áhuga á körfubolta og vilja búa til vikulegan þátt um Tindastólsliðið með viðtölum við leikmenn og umræðum um leikina. Þetta passar vel inn í kennsluna um Podcast-gerð sem við héldum fyrir þau í haust og ætlum við að leyfa þeim að renna sér af stað með þetta eins fljótt og hægt er.

Nokkrir eru samt enn í vandræðum og virðast ekki hafa þroska til að takast á við verkefni af þessu tagi. Það verður verkefni næstu vikna að takast á við það og ræða það jafnvel við foreldra hvort ekkert sé hægt að vinna að einhverju sem snýr að áhugasviði þeirra. Þetta eru þeir nemendur sem sinna minnstri vinnu í almennum kennslustundum og spurning er hvort þeir séu með mótþróa gagnvart námi almennt og að ekkert sem gert er í skóla sé þess virði, í þeirra huga, að vinna það almennilega. Það verður að koma í ljós. Við höfum þurft að senda aðila úr þessum hóp í vinnubókavinnu á meðan bekkjarfélagar þeirra eru að vinna í Snilldarstundinni. Það er frekar glatað en nauðsynlegt svo að þetta verði ekki frítími eða verðlaun fyrir leti.

Þau eru áhugasöm og frjó þegar kemur að því á hvaða hátt þau ætla að skila verkefnunum. Við báðum þau um að reyna að skila þessu ekki á "hefðbundinn" hátt sem glærusýning eða á docs skjali. Margir ætla að skila á Tackk og sumir ætla sér að gera myndbönd í iMovie til að sýna vinnuna, heimasíða er líka að líta dagsins ljós og svo höfum við fengið súkkulaði til að smakka og tölvuleiki til að spila.

Hérna koma svo nokkur verkefni sem verið er að vinna að þessa stundina:

  • American Horror Story - tenging þáttanna við raunveruleikann

  • Hvað veldur krabbameini og hvers vegna er það að gerast. Og hvernig geta læknar hjálpað. Og hvernig veistu hvort að þú sért að fá það?

  • Matreiðsluþáttur - pizzugerð með óhefðbundnu áleggi

  • Miðaldasverð

  • Saga Liverpool

  • Saga hjólabretta og hjólabrettamanna

  • Saga súkkulaðis og súkkulaðigerð

  • Saga íslenska hestsins

  • Þróun kvennaknattspyrnu á Íslandi

  • Lesblinda

  • Adidas

  • Spænska með áherslu á orð sem tengjast mat

  • Saga förðunar

  • Tölvuleikjafyrirtækið Valve

  • Leikjaforritun

  • Raftónlist

Við setjum svo inn fleiri greinar þegar skilin fara að detta inn hjá krökkunum.


Kíkið á okkur

  • árskóli.logo
  • Facebook Long Shadow
  • Twitter Long Shadow

Ef þið viljið koma einhverju á framfæri sem máli skiptir :) 

 

HAFA SAMBAND 

Success! Message received.

bottom of page