top of page

Snilldarstund (Genius hour)


Við höfum lengi gengið með þetta barn í maganum en síðasti vetur bauð ekki upp á byrja vegna þess hve allt var nýtt og krakkarnir áttu nóg með að aðlagast tækjunum og læra að nýta sér þau í náminu. Þess vegna var þetta sett í bið og ákveðið að reyna á þessu skólaári að koma þessu inn í stundatöfluna. Við erum mikið með bekkinn og það gefur okkur ákveðið frelsi frá þessari hugmynd að nám fari bara fram í 40 til 80 mínútna blokkum. Við gáfum krökkunum smá forsmekk í fyrra með litlu "forvitnisverkefni" þar sem þau fengu að leika sér að búa til kynningu á einhverju sem þau höfðu áhuga á.

En núna er komið að stóru stundinni. Nú verður a.m.k. klukkustund á viku næstu 8-10 vikurnar eyrnamerkt í Snilldarstund eins og við ætlum að kalla hana. Það var ekki mikið mál að kveikja í þeim og koma áhuganum af stað. Smá umræður fóru í útfærslu og nokkrir höfðu áhyggjur af hvernig þetta yrði metið. Ég sagði þeim strax að þetta yrði ekki metið heldur yrði það "heimurinn" sem myndi dæma verkið þar sem þessu yrði deilt sem víðast og hver sem vildi gæti skoðað afraksturinn.

Við settum okkur nokkrar grundvallarreglur til að byrja með og losna við óþarfa vesen.

1. Kennarinn hefur úrslitavald yfir hvað er gert hjá hverjum og einum. Hann getur hafnað hvaða hugmynd sem er án þess að þurfa að gefa rökstuðning fyrir því. Ef eitthvað er óviðeigandi eða of lítið í sniðum er þetta góð leið til að lenda ekki í töfum.

2. Ef þú getur fundið svarið við spurningunni á innan við mínútu á Google er spurningin alls ekki nægilega góð og þú verður að gera betur.

3. Velja sér efni. Ef það gengur illa er gott að skrifa niður 5-10 atriði sem vekja áhuga og skera svo niður þangað til maður er kominn með það sem maður vill helst fræðast um. Eða velja 3 áhugaverðustu efnin og fá kennarann til að aðstoða við að velja eitt.

4. Skoða efnið lauslega til að ná utan um það. Búa til lista yfir "heimildir" sem hægt er að skoða og nota.

5. Nemandinn þarf að útfæra hvernig á að meta hann. Eða réttara hvernig á afraksturinn að vera? Hvernig ætlar hann að skila efninu að sér svo hægt sé að deila því með öðrum. Vera skapandi í skilum. Ekki bara síða með texta.

6. Búa til áætlun og deila henni með kennaranum. Flott að gera það í Google Classroom. Gera heildaráætlun fyrir vikurnar sem á að eyða í verkefnið og svo áætlun fyrir hvern tíma. Engar líkur á að sú áætlun gangi upp en kennir þeim að skipuleggja tímann sinn og hjálpar kennaranum að fylgjast með hvort einhver vinna sé í gangi.

7. Vera óhrædd við að gera mistök. Það er partur af skapandi ferli að gera mistök. Þau þurfa að sætta sig við það að stundum er betra að byrja aftur heldur en að hjakka í sama farinu ef þau verða stopp.

Nú erum við búin með 2 skipti og þetta gengur misvel. Sumir eru farnir vel af stað. Fylgja áætlun og eru mjög skapandi á meðan aðrir eiga í miklum erfiðleikum með þetta allt saman. Finnst erfitt að þurfa að hugsa sjálfstætt og fá ekki mötun frá kennaranum sínum :)

Það þurfti að gera þeim ljóst að þetta væru forréttindi að fá að breyta kennsluháttum og taka skipulagðan tíma úr kennslu í þetta. Þeir sem ekki ráða við þetta fara þá aftur í "venjulega" kennslustund með hefðbundnu sniði. Það er líka í lagi. Það hefur komið á óvart að þau eiga mörg hver mjög erfitt með finna sér efni. Hvar er sköpunargáfan? Þarna er skólakerfið að klikka.

Við setjum svo inn nýja grein með myndum og gerum grein fyrir nokkrum hugmyndum krakkanna í næsta pistli.


Kíkið á okkur

  • árskóli.logo
  • Facebook Long Shadow
  • Twitter Long Shadow

Ef þið viljið koma einhverju á framfæri sem máli skiptir :) 

 

HAFA SAMBAND 

Success! Message received.

bottom of page